Ágrip af sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar

Article Index

Kaupfélag Steingrímsfjarðar á Hólmavík var stofnað 29. desember 1898. Stofnfundurinn var haldinn að Heydalsá, og nefndist félagið í upphafi Verslunarfélag Steingrímsfjarðar.

Tilkoma þessa félags var einn af áföngunum í baráttu fjölda landsmanna á seinni hluta nítjándu aldar fyrir því að færa verslunina inn í landið og í hendur innlendra almannasamtaka. Fyrsta meiri háttar átakið þeirrar ættar var stofnun Gránufélagsins fyrir og um 1870. Það starfaði með miklum umsvifum í allmörg ár undir ötulIi stjórn Tryggva Gunnarssonar, en leið síðan undir lok. Annað félag, og nærtækara Strandamönnum, var Félagsverslunin við Húnaflóa. Höfuðleiðtogi þess félags var Pétur Eggerz á Borðeyri, og umsvifamikil starfsemi þess spannaði árin 1869-77.

Fleiri félög um verslun komu til sögunnar, og þeirra á meðal var elsta kaupfélagið sem enn starfar, Kaupfélag Þingeyinga á Húsavík. Það var stofnað 1882 og hafði fljótt mikil áhrif sem fyrirmynd félaga í öðrum landshlutum. Naut það forystu ötulla og óhvikulla leiðtoga, sem kunnir eru úr samvinnusögunni.

Annar leiðtogi, úr öðrum landshluta, stóð þessum þó síst að baki, þótt félag hans yrði ekki eins langlíft í upphaflegri mynd. Það var Torfi Bjarnason í Ólafsdal í Dölum vestur. Torfi naut geysimikils álits meðal samtímamanna sinna, fyrst og fremst sem búnaðarfrömuður. Notadrjúgir urðu ensku ljáirnir og orfhólkarnir sem hann kenndi bændum að nota, og búnaðarskóli hans í Ólafsdal var þjóðþrifastofnun þaðan sem fjöldi ungra manna kom með haldgóða búnaðarmenntun eftir tveggja ára nám.

Eitt af áhugamálum Torfa í Ólafsdal var stofnun og rekstur verslunarfélaga. Var hann í því efni undir sterkum áhrifum frá skoðunum Jóns Sigurðssonar forseta og hvattur af örvunum hans. Torfi lét ekki sitja við orðin tóm heldur stofnaði Verslunarfélag Dalasýslu árið 1886. Það var með pöntunarfélagssniði líkt og flest elstu félögin og seldi einnig innlendar landbúnaðarafurðir. Persónuleg áhrif og leiðsögn Torfa ollu því að þetta félag náði fljótlega útbreiðslu um ótrúlega víðlent svæði. í byrjun náði það yfir Dalasýslu, og hluta af Snæfellsness og Barðastrandarsýslum, en síðar bættust við félagsmenn í Strandasýslu og Vestur-Húnavatnssýslu. Félagið var geysiöflugt um tíma og gerði almenningi mikið gagn.

Hugmynd Torfa mun hafa verið sú að upp úr Verslunarfélagi Dalasýslu skyldi með tíð og tíma stofna kaupfélag eða -félög. Með kaupfélagi hafði hann í huga félag að breskri fyrirmynd, sem ræki verslun, seldi vörur á markaðsverði en greiddi arð til félagsmanna eftir á að loknu uppgjöri og framlagi í sjóði. Í því skyni gekkst hann fyrir því að félagið hóf sjóðasöfnun með því að leggja álag á vörur, og ritaði hann um öll þessi efni merka grein í Andvara 1893. Voru sjóðahugmyndir hans mjög sömu ættar og það sem síðar varð um stofnsjóðina í kaupfélögunum.

Reyndin varð svo sú að upp úr Verslunarfélagi Dalasýslu voru stofnuð kaupfélög, og reyndar býsna mörg. Eitt þessara félaga var Verslunarfélag Steingrímsfjarðar, síðar Kaupfélag Steingrímsfjarðar. Líkt og Dalafélagið áður naut það þess happs að eiga traustum leiðtoga á að skipa. Mun velgengni þess framan af ekki síst hafa verið öruggri stjórn hans að þakka. Þessi maður var Guðjón Guðlaugsson alþingismaður, löngum kenndur við Ljúfustaði. Hann stýrði félaginu farsællega fram hjá öllum boðum fyrstu tvo áratugina, eða á meðan það var að slíta bernsku skónum og ná fótfestu. Hann hafði stundað nám um skamma hríð hjá Torfa í Ólafsdal og meðal annars hrifist af skoðunum hans um sjóðasöfnun félaganna. Ritaði hann um það efni greinargóða hvatningargrein í Tímarit kaupfélaganna 1897.


Stofnfundur

Sögulegar heimildir er víða að finna. Í skjalasafni Sambands íslenskra samvinnufélaga eru nokkur handskrifuð blöð með litríkri frásögn af stofnun Verslunarfélags Steingrímsfjarðar í árslok 1898. Með fylgir afrit af úrdrættinum úr stofnfundargerð félagsins, sem hér verður getið, og er þessi frásögn greinilega skrifuð sem eins konar viðbót við hana. Þrátt fyrir umfangsmikla leit hefur ekki tekist að finna höfund þessarar frásagnar, en ljóst er þó að hann hefur verið vel kunnugur þessu efni. Af þeim sökum þykir ekki rétt að láta frásögn hans liggja hér í þagnargildi, þótt höfundur sé ókunnur og af þeim sökum erfiðara en ella að vega og meta heimildargildi hennar. Þar segir m.a.:

"Veturinn 1899 var kafaldasamur og fannkyngi ein hin mestu á Ströndum sem elstu menn þá minntust. Hafís rak að Hornströndum, bændur komust í fóðurþröng og urðu að reka hross og hið skjarrasta úr fé sínu suður yfir heiðar, þar var bann léttara.

Um sumarmálin var strandferðabáturinn Skálholt á áætlunarferð sinni milli Reykjavíkur og Akureyrar, með viðkomu á höfnum Húnaflóa - og vörur þangað. Skipstjóri var Aasberg, þekktur að dugnaði og samviskusemi. Er komið var að Straumnesi lá hafísinn að ströndunum svo ei sýndist árennilegt um framhald ferðarinnar. En skipstjóri lét hvorki úrtölur farþega né landsins forna fjanda hindra för Skálholts. Áfram meðan smuga var fyrir stafni. Fólk og fénaður er við dyr hungurvofunnar, þess von - við komu skipsins - að vörurnar, sem þar eru innanborðs, komist á ákvörðunarstaðinn.

Skömmu áður en þessi saga gerðist, en fönninni kyngdi niður sólarhring eftir sólarhring, lögðu tveir nágrannar að heiman frá efstu bæjum í Kollafirði, á skíðum því annarra úrkosta var ekki til að komast bæja á milli. Oft var stormasamt um hugarlönd þessara förunauta hvors til annars. En nú var hugsjónin ein, áformið hið sama.

Snjónum kyngir niður, skíðin eru knúð, hallast er fram svo skriðsins njóti betur. Þrátt fyrir það er augljóst að þar fara keikir, dugmiklir, djarfir menn sem bjóða birginn hríð og stormi á Fróni. Eða ýmsum hindrunum á leið hugsjóna til raunveruleika.

Förunautar þessir eru þeir Guðjón alþm. á Ljúfustöðum og Arnór prestur á Felli. Þeir hafa verið samstarfsmenn Torfa í Ólafsdal við Verslunarfélag Dalamanna, Guðjón í stjórnarnefnd þess, Arnór prestur endurskoðandi þess. Er að Kollafjarðarnesi kom voru þar fyrir nokkrir sveitungar, bar þar mest á að vallarsýn og persónuleika Guðmundi Bárðarsyni bónda, enda þekktur vormaður í hugsjóna- og hagsmunamálum sveitanna.

Næsti áfangi var með sjó fram, nú voru þeir fleiri, allir vissu þeir húsakynni góð og mikla rausn á Smáhömrum hjá Birni bónda og Matthildi húsfreyju. En hugsjón sú, er fyllti hugi þeirra og nú á næstu klukkustundum skyldi færð til raunhæfrar athafnar, gaf þessum fámenna ferðamannahópi mest gildi.

A Smáhömrum voru mættir nokkrir bændur úr sveitunum beggja megin Steingrímsfjarðar. Á tilsettum tíma, að undangengnu fundarboði frá Guðjóni Guðlaugssyni var fundur settur, þar sem Guðjón reifaði málið, fyrst með því að nú væri starfsgrundvelli Verslunarfélags Dalasýslu breytt. Annað að nú væri hugmyndin sú að skipta því í smærri deildir, og að sumu leyti breyta starfsfyrirkomulagi þess, taka upp sölufyrirkomulag. Þó mætti halda pöntunarfyrirkomulaginu ef það virtist hagkvæmara. Urðu umræður allmiklar, en hvernig sem þær hafa verið varð niðurstaða fundarins sú að stofna söludeild með þeim hætti sem slík félagasamtök höfðu."

Að því er best verður séð mun þessi fundur að Smáhömrum hafa verið haldinn 28. desember 1898. Daginn eftir, 29. desember, var hinn eiginlegi stofnfundur síðan haldinn að Heydalsá. Þar var formlega gengið frá stofnun Verslunarfélags Steingrímsfjarðar.

Fyrsta fundargerðabók félagsins brann 1931, eins og getið verður, en til er lítil handskrifuð minnisbók, komin frá Birni Halldórssyni á Smáhömrum, sem geymir fyrstu lög félagsins og úrdrátt úr stofnfundargerð þess. Er við það stuðst hér. Í úrdrættinum úr stofnfundargerðinni kemur meðal annars ljóslega fram að fundarmenn ætla ekki strax að hætta félagsaðild að Verslunarfélagi Dalasýslu þrátt fyrir stofnun hins nýja félags. Jafnframt óska menn þar eftir því að fá til félagsins hlutdeild þess úr svo nefndum kaupfélagssjóði Dalafélagsins, en hann var eins konar vísir að stofnsjóði, ætlaður þeim kaupfélögum sem með tímanum spryttu upp af því.

Þá er í fundargerðarúrdrættinum minnst á "húskofa" félagsins á Hólmavík, sem virðist hafa verið í eigu Dalafélagsins. Hlutanum úr kaupfélagssjóðnum er annars ætlunin að verja til vörukaupa og til húsbyggingar á "Hólmarifi" , það er á Hólmavík.

Lög félagsins, sem samþykkt voru á stofnfundinum, eru mjög ýtarleg.

Félagssvæðið er sagt vera Árnes-, Kaldrananes-, Hrófbergs-, Kirkjubóls-, Fells- og Óspakseyrarhreppur. Ekki fara þó sögur af félagsstarfi í Óspakseyrarhreppi, og deild úr félaginu hefur mönnum vitanlega aldrei verið þar. Þá er tilgangur félagsins skilgreindur rækilega, sömuleiðis skipting í deildir, hlutverk deildarstjóra og formanns, og margt fleira.
Einnig var kosin stjórn á fundinum. Guðjón Guðlaugsson á Ljúfustöðum var kjörinn formaður, Björn Halldórsson á Smáhömrum varaformaður, og Guðmundur Bárðarson á Kollafjarðarnesi meðstjórnandi. Endurskoðendur voru kosnir séra Arnór Árnason á Felli og Grímur Ormsson í Miðdalsgröf. Á fundinn mættu fulltrúar úr fimm deildum:
Árnesdeild, Kaldrananesdeild, Hrófbergsdeild, Kirkjubólsdeild og Fellsdeild. Fram kemur að þeir hafa setið tvo daga á fundi þarna. Árnesdeild var í félaginu til 1903, en varð síðar stofninn í nýju félagi sem kom til sögunnar þar nyrðra.


Söludeild

Það kemur fram bæði í lögunum og úrdrættinum úr stofnfundargerðinni að þegar í byrjun hafa menn verið með hugmyndir um að setja á stofn á Hólmavík verslun, eða það sem á þessum tíma er nefnt "söludeild". Af þessu varð ekki alveg strax, heldur var verslað með pöntunarfélagsfyrirkomulagi fyrstu árin.

Breytingin kom hins vegar 1902. Snemma á því ári fór Guðjón Guðlaugsson utan til Skotlands og Kaupmannahafnar, þar sem hann keypti talsvert af vörum er þóttu ódýrar, einkum þó álnavara og búsáhöld. Einnig kom þetta ár til félagsins skip frá Noregi með farm af salti og timbri. Og eitt af því, sem félagið fékk að utan þetta árið, var tilhöggvin grind í hús og var ekki beðið boðanna með að reisa það. Í þessu húsi var verslunarbúð niðri en íbúð uppi. Hófst þá verslunarrekstur félagsins í búð sem gekk undir nafninu Söludeild. Ýmsum þótti geyst farið í sakirnar og ef til vill af ógætni, eins og eftirfarandi vísa vottar, sem um þetta komst á kreik:

Húsið heitir hrynjandi
hjá þjóðvegi standandi,
það var byggt í bráðræði,
bæði í skuld og ráðleysi.

Næstu árin hélt pöntunarverslun þó áfram jafnhliða söludeildinni, en smádvínaði og var nánast úr sögunni um 1910.

Lýsing á húsinu er til, eftir Jóhann Hjaltason. Hann minnist þess frá árunum 1906-11 og lýsir því svo:

"Íbúðar- og verslunarhús Söludeildarinnar á fyrrnefndu tímabili var tvílyft timburhús, klætt bárujárni. Það var með kvisti á suðurhlið, en snéri göflum frá vestri til austurs og stóð á frekar lágum kjallara sem eingöngu mun hafa verið til geymslu. Í sjálfu sér er ekki rétt að segja að húsið væri tvílyft, því að efri hæðin var í raun og veru rishæð, þó að þess gætti lítt vegna þess hvað portið var hátt en þak lítið bratt. Þrátt fyrir það mun hafa verið eitthvert geymslupláss á hanabjálka eða efsta lofti. Sambyggð við þetta aðalhús, að norðan- og austanverðu, voru geymslu- eða vöruhús mörg með flötu þaki og hvert við enda annars. Munu þau öll ekki hafa verið byggð í sama sinn, en mynduðu að lokum eins konar skeifu eða húsagarð, opinn til suðurs og nokkurn veginn beint upp af Söludeildarbryggjunni."

Jóhann getur þess einnig að haustið 1910 hafi Guðjón kaupfélagsstjóri látið þilja einn kaupfélagsskúrinn í hólf og gólf og gera úr vistlega stofu. Í henni var stofnað til barnaskólahalds veturinn 1910-11.


Áföll og endurreisn

Árið 1910 ritaði Guðjón kaupfélagsstjóri einnig rækilega skýrslu um félagið í Tímarit kaupfélaga og samvinnufélaga (síðar Samvinnuna). Eins og hér kom fram hefur félagið fljótlega aukið við byggingar sínar á Hólmavík, og í grein sinni skýrir Guðjón meðal annars svo frá að félagið sé þá búið að koma sér upp "talsvert stóru sláturhúsi."

Í grein þessari segir Guðjón einnig töluvert frá gengi félagsins frá stofnun þess til 1910. Þar segir meðal annars að allt fram til 1906 hafi hagur félagsins staðið með blóma. Söludeildin hafi gefið félagsmönnum 11-18% verslunararð, en 1907 hafi hvert óhappið af öðru riðið yfir. Félagsmenn hafi þá tekið að standa mun verr í skilum en fyrr, félagið hafi tapað talsverðu fé við gjaldþrot verslunarfyrirtækis í Kaupmannahöfn, og söludeildin hafi sömuleiðis tapað meira eða minna á öllum íslenskum vörum. Þetta hélt svo áfram 1908: stórkostlegt tap varð á fiski, vaxta tap varð mikið og útistandandi skuldir félagsmanna hækkuðu enn. Þegar þarna var komið var varasjóður félagsins að fullu uppurinn, og stórt skarð var höggvið í stofnsjóðinn.

Félagið jafnaði sig þó eftir þetta áfall, og árið 1911 tókst að lækka skuldir þess við heildsala og banka verulega, sömuleiðis greiddu félagsmenn stóran hluta af skuldum sínum við það. Afkoman varð nógu góð til þess að hægt reyndist að ná stofnsjóðnum upp í svipaða upphæð aftur og verið hafði fyrr, og unnt reyndist að leggja dá góða fjárhæð í varasjóð.

Verslunarfélag Steingrímsfjarðar starfaði þannig allt frá byrjun með sama hætti og flest önnur kaupfélög hér á landi, það er sem blandað félag. Þetta er sérkenni fyrir íslensku kaupfélögin, ef tekið er mið af samvinnufélögum í öðrum hlutum heimsins. Íslensku félögin eru jöfnum höndum félög framleiðenda og neytenda, þar sem afurðasala og neysluvöruútvegun er víðast hvar annars staðar aðskilin og í höndum sérstakra félaga. Þetta á sér vitaskuld sögulegar skýringar; Í byrjun og lengi frameftir voru framleiðendur og neytendur í hópi félagsmanna eitt og sama fólkið.

Frá byrjun hefur félagið því séð um að kaupa inn og útvega félagsmönnum sínum hvers konar verslunarvörur til almennrar neyslu. Það hefur einnig allt frá fyrstu tíð séð um að selja framleiðsluvörur félagsmanna. Fyrstu árin voru þetta fyrst og fremst landbúnaðarafurðir: ull, saltkjöt, gærur, sauðfé á fæti, æðardúnn og selskinn. Saltfiskur kemur þó til sögunnar þegar á fyrsta ári félagsins sem gjaldeyrisvara, og er hann töluverður liður í útflutningi þess árlega framan af.

Þá stofnaði félagið sparisjóð fyrir félagsmenn sína mjög snemma, eða þegar upp úr aldamótum. Sparisjóðurinn var rekinn í nánum tengslum við félagið, og var hann hliðstæður innlánsdeildunum sem reknar hafa verið innan flestra annarra kaupfélaga. Hann var starfræktur fram á áttunda áratuginn eins og síðar verður getið.

Samkeppni var nokkur um verslun á Hólmavík framan af. Árið 1896 hóf danskur maður, uppalinn á Ísafirði, R.P. Riis að nafni, að versla þar, og í allmörg ár rak hann verslun sem keppti við félagið. Verslunarstjóri hans var íslenskur, Jón Finnsson, uppalinn í héraðinu og þekkti vel til. Þessar verslanir kepptu allhart um viðskipti, en eftir að Riis lést, og enn meir nokkrum árum síðar þegar verslun hans hafði verið seld öðrum manni, fór að draga af henni. því lyktaði svo að árið 1937 keypti kaupfélagið hús og mannvirki Riisverslunar.

Meðan samkeppnin stóð voru báðar þessar verslanir talsvert umsvifamiklar. Báðar áttu verslunarhús, sláturhús, bryggjur og uppskipunarbáta. Sláturhúsin voru svipuð að gerð og lögun hjá báðum, og utan sláturtíðar voru þau talsvert notuð til annarra hluta. Einkum voru þau nýtt sem vörugeymslur, en einnig kom fyrir að í þeim væri efnt til pólitískra fundahalda.


Vinnubrögðin

Á fyrstu áratugum aldarinnar var atvinnulíf um margt frábrugðið því sem við þekkjum í dag. Þótt verkefni kaupfélagsins séu í megindráttum þau sömu, afurðasala og vöruútvegun, hafa vinnubrögð gjörbreyst í takt við framþróun tækninnar. Jón Sæmundsson frá Hólmavík birti fyrir nokkrum árum grein sem hefur að geyma minningar hans frá árunum 1915-20 þegar hann stundaði sláturvinnu á haustum hjá félaginu á Hólmavík. Frásögn hans bregður upp skýrri mynd af starfsaðferðum þessara tíma, en hann segir meðal annars:

"Ég var settur í það starf að salta kjötið, en þá var allt kjöt saltað og selt þannig út úr landinu ... Kjötið var saltað í tunnur og voru þær innfluttar. Tunnustafirnir komu í búntum, þ.e. hver tunna í einu búnti. Efnið í þessum tunnum var kallað brenni. Það var ekki þykkt, en vel unnið, slétt og áferðargott ... Ákveðin þyngd af kjöti og salt var látið í hverja tunnu, og var kjötþyngdin 112 kg. Um saltþyngdina man ég ekki því það var mælt í trékassa sem til þess var smíðaður og hafður var sléttfullur, var þetta gert til flýtisauka. Aftur á móti varð maður að vigta kjötið í hverja tunnu og hafði maður fasta vigt til þess. Lóð voru á vigtinni til jafnvægis á móti kjötinu og kassa sem maður lét það í til vigtunar. Oft þurfti að skipta um eitt eða tvö kjötstykki til þess að fá jafnvægi á vigtina. Þá var tvisvar settur saltpétur í hverja tunnu, og var hann mældur í brennivínsstaupi sem stéttin var brotin af. Var það hið venjulega snafsstaup þess tíma ...

Þegar pækilmaðurinn tók við tunnunum þá raðaði hann þeim upp á tunnustæðið í tvær samsettar raðir með götum á milli, svo að gott væri að komast að þeim til pæklunar. Þeim var ennfremur raðað þannig að samsetning botna snéri upp og niður og að merkingu á þeim mætti lesa. Annars var hverri tegund kjöts haldið á nokkuð sérstökum reitum, hvert um sig, og því auðvelt að finna út að slátrun lokinni hvað hafði komið mikið af hverri tegund kjöts í sláturtíðinni. Þegar svo pækilmaðurinn hafði raðað tunnunum upp á tunnustæðinu þá boraði hann gat á þann tunnustafinn sem mest vissi upp og sem næst miðju hans. Var þetta kallað sponsgat og um það var pækilvatnið á tunnurnar sett í gegnum trekt. Var síðan trétappa stungið lauslega í þetta gat og hann aldrei sleginn fastur í fyrr en vissa var fengin fyrir því hvenær tunnurnar fóru í skip. Pækillinn á tunnurnar var búinn til í stóru trékari. Var það með sveifarás í miðju, sem var með spöðum í botni en handfangi ofan brúna. Í þessu kari var hrært saman salt og vatn, sem við upplausn var kallað pækill eða pækilvatn. Þessi upplausn eða pækill varð að hafa vissan styrkleika og var hann mældur með þar til gerðum mæli ... "

Jón Sæmundsson lýsir einnig upp- og útskipun á vörum á Hólmavík á þessum árum, meðal annars þannig:

"Mér dettur í hug í þessu sambandi ein uppskipun sem ég var í á áratugnum 1920-1930. Þetta var að vori til og það kom saltskip sem eingöngu var með laust salt í lestum. Það var smalað saman mannskap úr sveitunum, er næst lágu kauptúninu, til vinnu við þetta skip. Saltmagnið, sem fara átti í land á Hólmavík og Drangsnesi, mun hafa verið óvenju mikið, og bendir það til þess að nokkuð hafi verið liðið á þriðja áratug aldarinnar. Setja varð um borð í skipið menn í lest, sem nokkuð var óvenjulegt á þeim árum. Þessi mannskapur varð að moka saltinu í poka, sem svo voru hífðir um borð í uppskipunarbátana, en um þann þátt vinnunnar sáu skipsmenn. Ég var í einum uppskipunarbátnum, sem og jafnan í þessari vinnu. Öllu þessu urðum við, sem í bátunum vorum, að henda úr þeim og upp á bryggju, þar sem þeir menn, er voru í landi, tóku við þessu. Var því ýmist ekið þaðan í hjólbörum eða borið á bakinu til salthússins ... "

Guðjón Guðlaugsson var kaupfélagsstjóri til 1919, en þá tók við Sigurjón Sigurðsson til 1923. Árin 1923-26 var Jónatan Benediktsson kaupfélagsstjóri, en Sigurjón aftur 1926-31 og Jónatan aftur 1932-38. Árin 1939-41 var Guðbrandur Magnússon frá Hólum kaupfélagsstjóri, Þorbergur Jónsson 1942-44, en síðan Jónatan Benediktsson í þriðja skipti 1945-58.


Bruni og uppbygging

Aðfaranótt 18. september 1931 varð félagið fyrir því tjóni að eldsvoði varð í byggingum þess á Hólmavík. Brunnu nær öll hús þess þar, íbúðar og verslunarhús, sláturhús og geymsluhús. Varð engu bjargað utan nokkru af höfuðbókum. Meðal annars eyðilögðust þar fundagerðabók félagsins, höfuðbók stofnsjóðs og þær bækur sem geymdu reikninga félagsins frá byrjun. Eftir stóð aðeins lítið og nýbyggt steinhús sem notað var sem geymsla. Hús og vörur voru lágt vátryggð, svo að tjón félagsins var mikið. Varð það að mestu að afskrifa varasjóð sinn, svo að um tíma var óvíst um áframhald þess.

Í kjölfar þessa fylgdi svo geysilegt verðfall á innlendum vörum 1932 og kreppuuppgjör hjá bændum 1933-34. Allt lagt saman kostaði þetta mikla erfiðleika. Félagið tók á leigu eina stofu til skrifstofuhalds, og vörur voru afhentar í sama húsi og þær voru geymdar í. Viðskiptavinum og starfsfólki var skiljanlega að þessu mikið óhagræði.

En hús voru byggð að nýju, sláturhúsið 1932, verslunarhús og íbúð 1934 og kjötfrystihús 1936. Með kaupunum á húsum Riisverslunar 1937 mátti svo heita að félagið hefði aftur eignast nægan húsakost til starfsemi sinnar. Síðan var svo, á árunum 1943-45, byggt hraðfrystihús með aðstöðu til að taka á móti 20-30 tonnum af fiski á dag. Var þetta frystihús lífæð útgerðar og atvinnu manna á staðnum. Í húsakynnum frystihússins var einnig rafstöð sem kauptúnið fékk allt sitt rafmagn frá.


Hálfrar aldar yfirlit

Það er oft svo um sögu kaupfélaga að fyrstu árin - baráttuárin - meðan verið er að ryðja brautina og koma fótunum undir félagsskapinn, eru einna frásagnarverðust. Svo er og hér, og sú saga, sem nú hefur verið rakin eftir slitróttum heimildum vegna skorts á fundagerðabókum og öðrum frumheimildum, er trúlega sá þáttur í sögu Kf. Steingrímsfjarðar sem hvað áhugaverðastur má þykja aflestrar. En félagið hefur verið í stanslausri framþróun síðan, og þótt á stundum kunni að hafa gustað allhart innan þess út af mönnum eða málefnum, hefur það samt aldrei gengið svo langt að undirstöður þess hafi verið í hættu.

Fram til ársins 1939 var sá háttur hafður á í félaginu að kaupfélagsstjóri var jafnframt formaður stjórnar. Frá 1939 til 1942 var stjórnarformaður síðan Benedikt Grímsson hreppstjóri og bóndi á Kirkjubóli. Arið 1942- 43 gegndi starfinu Magnús Gunnlaugsson bóndi á Ósi, en 1943-73 var formaður Jón Sigurðsson bóndi í Stóra-Fjarðarhorni. Þá tók við Grímur Benediktsson á Kirkjubóli, sem gegnir starfinu enn.

Þegar Jónatan Benediktsson lét af starfi kaupfélagsstjóra 1958 tók við Þorgeir Guðmundsson. Hann gegndi starfinu til 1967, en þá tók við því Árni S. Jóhannsson. Ári síðar, 1968, tók Árni við Kaupfélagi Húnvetninga á Blönduósi, en kaupfélagsstjóri á Hólmavík varð þá Jón E. Alfreðsson, áður skrifstofumaður hjá félaginu. Hann hefur gegnt kaupfélagsstjórastarfinu samfellt síðan.

Það sem hér fer á eftir er ágrip af sögu félagsins frá 1931, og er það rakið eftir upplýsingum úr bókum þess og ábendingum kunnugra manna. Hefur Jón E. Alfreðsson kaupfélagsstjóri orðið drýgstur við útvegun þeirra upplýsinga, en Þorgeir Guðmundsson fyrrverandi kaupfélagsstjóri hefur einnig miðlað mörgum gagnlegum fróðleik.

Þar er fyrst að nefna að árið 1931 er samþykkt á aðalfundi að taka upp deildaskiptingu í félaginu. Var ákveðið að ein deild skyldi vera í hverjum af fjórum hreppum félagssvæðisins. Síðar kom svo fimmta deildin til sögunnar, í Hólmavíkurhreppi. Eins og fyrr getur var deildaskipting í félaginu þegar við stofnun þess samkvæmt áður nefndum úrdrætti úr stofnfundargerð og fyrstu lögum. Er því svo að sjá að hún hafi fallið niður um tíma, ef til vill vegna þess að niðurfelling pöntunarfyrirkomulagsins hafi gert hana óþarfa, en um þetta eru ekki heimildir.


Áfengisbindindi

Margt kemur upp á yfirborðið þegar farið er að huga að sögulegum heimildum. Skömmu fyrir seinna stríð bar svo til að eftirfarandi tillaga var borin fram á fulltrúafundi í félaginu:

"Fundurinn samþykkir að setja framkvæmdastjóra Verslunarfélags Steingrímsfjarðar það skilyrði meðal annars að hann skuli vera alger bindindismaður á áfenga drykki meðan hann er í þjónustu félagsins. Þetta skilyrði nær einnig til annarra fastra starfsmanna félagsins."

A fundinum var síðan farin sú kurteislega leið að afgreiða málið með svohljóðandi rökstuddri dagskrá:

"Með því að fundurinn er máli þessu fylgjandi yfirleitt, en sér samt ekki fært að samþykkja tillöguna nú eftir atvikum, þá beinir fundurinn máli þessu heim í deildirnar til athugunar um hvort ekki mætti setja þetta ákvæði inn í samþykktir félagsins, t. d. á næsta aðalfundi, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá."

Ekki fara frekari sögur af umræðum um þetta mál, enda myndi það vera einsdæmi ef krafist hefði verið slíks bindindis af starfsfólki kaupfélags. Líklegt má líka telja að ýmsum þætti hart að þurfa að ráða sig upp á slík býti nú á dögum.


Framkvæmdir

Um byggingar og húsakaup félagsins árin 1931-37 er áður getið, en árið 1939 var svo nafni félagsins breytt. Þá var lagt niður formlega nafnið Verslunarfélag Steingrímsfjarðar, en tekið upp heitið Kaupfélag Steingrímsfjarðar, sem það hefur borið síðan. Bílaútgerð félagsins hófst á stríðsárunum, og 1942 keypti það fyrsta bíl sinn. Framan af voru bílar eingöngu notaðir til innanhéraðsflutninga, en síðar voru teknar upp ferðir til Reykjavíkur eins og getið verður. A árunum 1945-46 mun félagið síðan hafa opnað lítið verslunarútibú sem það rak um allmörg ár á Kaldrananesi.
Framkvæmdum var svo haldið áfram, fyrst með frystihúsinu á Hólmavík sem nefnt var, en 1949 var hafin bygging fiskimjölsverksmiðju á Hólmavík. Var hún tekin í notkun árið eftir.

Árið 1950 færði félagið út kvíarnar og hóf starfsemi á Drangsnesi. A aðalfundi það ár var samþykkt að stofnsetja þar verslunarútibú og í framhaldi af því voru keyptar vörubirgðir verslunarinnar Hamravík þar, húsnæði tekið á leigu hjá eiganda hennar, Guðmundi Þ. Sigurgeirssyni, og hann jafnframt ráðinn útibússtjóri.


Hugað að útgerð og fiskvinnslu

Afskipti félagsins af fiskvinnslu stóðu á talsvert gömlum merg þegar hér var komið, og þá var stutt yfir í að það færi að taka þátt í fiskiskipaútgerð. Þetta mál kom til umræðu á fundi 1951, sem samþykkti að leggja fram hlutafé í fyrirtæki sem þá var hugmyndin að stofna til togarakaupa. Ekki varð þó af stofnun þessa fyrirtækis að sinni. Þetta sama ár var einnig til umræðu að félagið keypti hraðfrystihús sem var á Drangsnesi, en náði ekki samþykki félagsmanna.

Árið eftir, 1952, var til umræðu að stofna sérstakt félag út úr Kf. Steingrímsfjarðar í Kaldrananeshreppi. Það ár var samþykkt tillaga á aðalfundi Kaldrananeshreppsdeildar sem hljóðaði svo: "Fundurinn skorar á stjórn KSH að undirbúa nú þegar skipti á Kf. Steingrímsfjarðar, þannig að Kaldrananeshreppur geti orðið sér kaupfélag, og sé afhentur sinn hluti af eignum og sjóðum KSH eins og lög standa til. " Aðalfundur félagsins afgreiddi málið með svohljóðandi samþykkt: "Leiði skoðanakönnun í ljós í Kaldrananeshreppsdeild að meirihlutavilji sé fyrir hendi að skipta kaupfélaginu ásamt eignum og sjóðum þess, felur aðalfundur stjórn KSH allan undirbúning skiptanna og leggja málið fyrir næsta aðalfund." Þessi tillaga var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, en til skiptanna kom aldrei.

Félagslega hliðin á starfsemi Kf. Steingrímsfjarðar var ekki vanrækt á þessum árum. Árið 1953 var stofnaður ferðasjóður af fulltrúum á aðalfundi til þess að standa fyrir ferðum í önnur byggðarlög og til annarra kaupfélaga. Fyrsta ferðin var farin 1954 og voru þátttakendur félagsmenn úr tveim til þremur deildum í ferð. Þessar ferðir urðu mjög vinsælar í bili, en lögðust svo af í kringum 1960.

Árið 1955 var samþykkt að hefja slátrun í gömlu frystihúsi sem félagið hafði keypt á Kaldrananesi. Þetta var gert og slátrað þar síðan í nokkur ár. Þá var verslunarhús félagsins á Hólmavík stækkað með viðbyggingu árið 1956.

Útgerðarmálin voru áfram á dagskrá eins og við var að búast á stað sem átti mest sitt undir fiskveiðum og fiskvinnslu. Á sérstökum fulltrúafundi 28. desember 1958 var samþykkt að félagið legði fram 100 þús. kr. af 300 þús. kr. hlutafé í félagi sem verið var að stofna um kaup á 250 tonna togskipi. Fljótlega upp úr þessu var félagið stofnað og nefndist það Steingrímur hf. Það keypti nýjan 250 tonna austur-þýskan togara sem gefið var heitið Steingrímur trölIi. útgerðin gekk þó illa, og 1962 var togarinn seldur. Hlutafélagið Steingrímur leið þá undir lok.


Frystihús - sláturhús

Umsvif félagsins á Drangsnesi jukust 1959 þegar það keypti hraðfrystihúsið þar á nauðungaruppboði. Kaupverðið var rúm ein milljón króna. Sama ár voru keypt hlutabréf í Niðursuðuverksmiðju Hólmavíkur fyrir 45 þús. kr., og einnig keypti kaupfélagið það ár íbúðarhús þeirra Þorkels Hjaltasonar og Magnúsar Jörundssonar á Hólmavík til að fá lóð þess undir byggingu nýs sláturhúss. Um vorið var byrjað á sláturhúsbyggingunni, og var húsið steinsteypt og tveggja hæða, 640 fermetrar hvor hæð. Húsið var byggt á fimm mánuðum, frá maí til september, og má segja að það hafi verið sérstakt afrek byggingameistarans sem var Þorsteinn Jónsson á Hólmavík.

Tilkoma nýja sláturhússins gjörbreytti allri slátrunaraðstöðu félagsins til hins betra, en slátrun hófst í því í októberbyrjun þetta ár, 1959. Ein af afleiðingunum var sú að slátrun á Kaldrananesi lagðist niður. Þar var slátrað í síðasta skipti 1959. Árið 1960 var svo sett upp bíla vigt á Drangsnesi í samstarfi við Kaldrananeshrepp. Því var háttað þannig að hreppurinn keypti vigtina, en kaupfélagið kostaði uppsetningu og vigtarhús, gegn því að fá not af henni án greiðslu á meðan það hefði einhvern atvinnurekstur á Drangsnesi. Árið eftir, 1961, voru svo vinnslusalur og fiskmóttaka frystihússins á Hólmavík stækkuð.

Mjólkurvinnsla og mjólkursala voru mikið til umræðu á árunum 1961-65. Þá var fjallað mjög um það innan félagsins að stofna til mjólkurbús á Hólmavík,en kom þó aldrei til framkvæmda. Meðal ástæðna voru vandamál og ósamkomulag um lóð fyrir bygginguna á Hólmavík. Mjólkurmálin komu aftur til umræðu síðar, en 1976 var gerð tilraun til þess á vegum félagsins og Framleiðsluráðs landbúnaðarins að flytja mjólk frá bændum á félagssvæðinu til vinnslu á Hvammstanga og neyslumjólk aftur þaðan. Þessi tilraun stóð skamman tíma, eða aðeins fram til septemberloka þetta ár, og var þá hætt. Síðan hefur neyslumjólk verið sótt til Reykjavíkur frá Hólmavík.

Árið 1962 keypti félagið yfirbyggða flutningabifreið í fyrsta skipti. Með tilkomu hennar var síðan byrjað á verulegum vöruflutningum á milli Hólmavíkur og Reykjavíkur. Árið eftir keypti félagið svo þau hlutabréf í Niðursuðuverksmiðju Hólmavíkur sem það átti ekki fyrir, en húsnæðið var tekið til saltfiskverkunar. Sama ár var einnig hafin bygging á kjötfrystihúsi við sláturhúsið á Hólmavík. Það húsnæði var tekið í notkun 1965.


Erfið ár

Á árunum 1963-64 gekk frystihúsareksturinn hjá félaginu vægast sagt mjög illa. Þetta átti einkum við um húsið á Drangsnesi, en einnig voru erfiðleikar í rekstri hússins á Hólmavík. Ástæðurnar voru þær að kaupin og reksturinn á frystihúsinu á Drangsnesi ollu verulegum vandræðum, fyrst og fremst fyrir það að næstu árin á eftir urðu mikil aflaleysisár og framleiðslan dróst saman. Þetta gekk svo langt að haustið 1963 ákvað félagsstjórn að loka Drangsneshúsinu og gerði meðal annars um það svohljóðandi samþykkt:

"Vegna vaxandi hallareksturs á hraðfrystihúsinu á Drangsnesi á undanförnum árum, og þar sem allt bendir til þess að hann aukist stórlega á þessu ári, ákveður stjórn KSH að hætta rekstri hússins um n.k. áramót að óbreyttum aðstæðum. jafi1framt ákveður stjórnin að tilkynna hlutaðeigandi aðilum, s.s. hreppsnefnd Kaldrananeshrepps, Verkalýðsfélaginu á Drangsnesi og útgerðarmönnum á staðnum, þessa ákvörðun og tjáir sig reiðubúna að ræða við ofannefnda aðila, ef tækist að finna grundvöll að áframhaldandi rekstri hússins í einhverju formi."

Fleiri samþykktir voru gerðar um málið á þessum árum, og kom þar meðal annars fram sú skoðun að eðlilegt væri að félagið stuðlaði að því að auka atvinnulífið á félagssvæðinu, en samt sem áður yrði það að vera meginreglan að fjárhag þess væri ekki stefnt í voða með því móti. Einnig kom til umræðu um þetta leyti að stofna hlutafélag um rekstur frystihúsanna, annars eða beggja, sem ekki reyndist þó grundvöllur fyrir að sinni. Með samstilltu átaki allra, sem hlut áttu að máli, tókst síðan að koma í veg fyrir að félagið neyddist til að hætta þessum rekstri, og til lokunar kom aldrei þótt tæpt stæði.

En erfiðleikarnir voru miklir, og raunar var þarna teflt á tæpasta vað með rekstur félagsins. Síðan bættist það við að veturinn og vorið 1965 fylltust Húnaflói og Steingrímsfjörður af hafís, svo að bátar komust ekki á sjó frá því í byrjun mars og þar til í byrjun júní, eða í þrjá mánuði. Allar samgöngur á sjó tepptust jafnlengi.

Bátar frá Hólmavík og Drangsnesi höfðu í tvo til þrjá áratugi róið á vetrarvertíð með línu, en nú lagðist sú útgerð alveg niður. Kaupfélagið stóð því uppi með tvö hraðfrystihús hráefnislaus, og því voru erfiðir tímar framundan. Rekstur frystihússins á Hólmavík naut þess þó að það var jafnframt kjötfrystihús og hafði alltaf verulegan stuðning úr þeirri átt.

Einnig er þess að geta að á árunum upp úr 1960 var töluverð smásíldarveiði á Steingrímsfirði, umfram það sem áður hafði verið fryst til beitu fyrir heimabáta. Kaupendur voru útgerðarmenn suður með sjó. Langmest var veiðin þó vorið 1963, en þá voru fryst um það bil 600 tonn af síld, sem seldist svo til öll eftir hendinni. En eftir það dró bæði úr veiði og eftirspurn jafnframt því sem línu veiði dróst saman í verstöðvum á Suðurnesjum. Þetta var þó verulegur búhnykkur, bæði fyrir þá sem veiðarnar stunduðu og fyrir kaupfélagið, og menn bjuggu að þessu í mörg ár á eftir þegar harðnaði á dalnum.

Til marks um erfiðleikana á þessum árum má geta þess að á sjöunda áratugnum fækkaði íbúum Hólmavíkur úr um 420 í um 330, eða um nálægt 90 manns.


Upphaf rækjuvinnslu

Til bjargar varð þó að um þetta leyti kom rækjuvinnsla til sögunnar, en naumast mun ofmælt að hún hafi komið líkt og himinsending til Strandamanna þegar þeim reið mest á. Þorgeir Guðmundsson fyrrverandi kaupfélagsstjóri var svo vinsamlegur að láta skrásetjara þessa efnis í té skriflega frásögn af byrjun rækjuvinnslunnar, og er hún svohljóðandi:

"Eins og útlitið var eftir ísaveturinn og vorið 1965 var óhugsandi að útgerð yrði stunduð áfram eins og verið hafði að vetrinum. Til þess að fá mannskap urðu útgerðarmenn að fastráða þá og borga þeim kauptryggingu, en til þess voru þeir ekki í stakk búnir sem skiljanlegt er.

Einhvern tíma á sjötta áratugnum hafði verið gerð tilraun til að leita að rækju í Húnaflóanum, sem ekki bar þó árangur. Þrátt fyrir það leyndist sú von hjá sumum að ekki væri útséð með að rækja kynni að vera í flóanum.

Jóhann Guðmundsson útgerðarmaður á Hólmavík vakti um sumarið eða haustið 1965 máls á því við mig hvort kaupfélagið væri reiðubúið til þess að kaupa af sér rækju ef hann gerði tilraun til að kanna hvort hana væri að finna í veiðanlegu magni. Engin aðstaða var þó á staðnum til að vinna rækju, nema húsnæði og frystiaðstaða. fyrst og fremst vantaði útbúnað til að sjóða hana, en til þess þurfti gufuketil ásamt fleiru.

Ég vildi gjarnan kanna hvort möguleiki væri á að koma upp vísi að rækjuvinnslu með litlum tilkostnaði, en óvissa var að sjálfsögðu mikil um það hvernig til tækist og eins víst að engin rækja fyndist. Þegar ég ræddi þetta við starfsmenn mína rifjaðist upp að til hefði verið lítill gufuketill í Iifrarbræðslu sem kaupfélagið átti. Hún hafði þá verið lögð niður nokkrum árum áður, ketillinn verið dæmdur ónýtur, eða a. m. k. óþarfur, og honum velt út í sjó, og þar lá hann. Var nú ákveðið að fiska ketilinn upp úr sjónum og kanna ástand hans. í ljós kom að það var hægt með litlum tilkostnaði að gera við ketilinn og koma honum í nothæft ástand. Þar með var kominn sá búnaður sem þurfti, en að vísu mjög frumstæður, t.d. var suðupotturinn olíu fat sem annar botninn var höggvinn úr. En allt var klárt til að hefja rækjuvinnslu. Sannaðist þarna hið fornkveðna að mjór er mikils vísir."

Og með þessum frumstæðu tækjum var síðan hafist handa. Handpillun á rækju hófst í frystihúsinu á Hólmavík haustið 1965 og í Drangsneshúsinu árið eftir, 1966. Allar götur síðan hefur rækjuvinnslan verið ein af veigamestu undirstöðum atvinnulífs á þessum stöðum.


Erfiðleikar hjá bændum

En ekki voru allir erfiðleikar að baki með þessu. Arið 1968 varð félaginu mjög erfitt og mikið tapár, enda rekstrarerfiðleikar jafnt hjá því og bændum. Í sumum af deildum félagsins voru þá skipaðar sérstakar nefndir til að reyna að leysa áburðarkaup og fleira sem varðaði viðskipti bænda við félagið. Í þessum nefndum voru stjórnarmenn, deildarstjórar, búnaðarfélagsformenn og oddvitar hvers hrepps um sig. Eitt af því sem kom þá aftur til umræðu var stofnun hlutafélaga um rekstur frystihúsa félagsins. Ekki varð þó heldur af því að þessu sinni.

A aðalfundi 1969 var borin fram tillaga um að leggja niður útibúið á Kaldrananesi, en hún felld með jöfnum atkvæðum. Það ár var sett upp nýtt flökunarkerfi í frystihúsinu á Hólmavík, keypt þangað ný roðflettivél og komið á bónusvinnu í fiski. Árið eftir, 1970, var byrjað að færa bókhald félagsins í tölvu Sambandsins í Reykjavík. Þá var einnig samþykkt á aðalfundi, eftir beiðni Búnaðarbanka Íslands, að ræða möguleika á að hann yfirtæki sparisjóð kaupfélagsins, sem ekki náðist þó samkomulag um í það skiptið. Aðalfundur samþykkti þá líka að leggja niður útibúið á Kaldrananesi, sem gert var um áramótin næstu.

Stjórn kaupfélagsins ákvað þetta ár að setja á stofn bensínsölu og ferðamannaverslun, en leyfi fékkst ekki hjá hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps. Þá var auk heldur byrjað á viðbyggingu við frystihúsið á Hólmavík sem hýsa skyldi kaffistofu, búningsklefa og snyrtingu, og félagið keypti danska rækjupillunarvél. Árið 1971 var bætt við annarri slíkri, og þá var viðbyggingin við frystihúsið einnig tekin í notkun. Ári síðar, 1972, voru báðar dönsku rækjupillunarvélarnar fluttar yfir á Drangsnes. Amerísk pillunarvél var þá tekin á leigu í frystihúsið á Hólmavík og annarri slíkri bætt við árið eftir.

Sláturhúsið var tekið til gagngerrar endurnýjunar á árinu 1973. Þá var skipt um allar innréttingar í því, og húsinu breytt fyrir keðjufláningu. Samtímis var húsið klætt að innan og einangrað að nýju. Þetta ár var líka hafin kvöld- og helgarsala í verslun félagsins á Hólmavík.

Árið 1973 var einnig gengið frá samkomulagi við Búnaðarbankann um að hann yfirtæki sparisjóð kaupfélagsins. Jafnframt var stofnuð innlánsdeild við félagið. Af innistæðum í sparisjóðnum fóru um tveir þriðju hlutar yfir í Hólmavíkurútibú bankans, en um þriðjungur í innlánsdeildina.

Af atburðum ársins 1974 er að nefna að þá voru skrifstofur félagsins fluttar í þann hluta verslunarhússins sem verið hafði íbúð kaupfélagsstjóra, en vefnaðarvöruverslun opnuð í því sem áður var skrifstofuhúsnæðið. útibússtjóraskipti urðu á Drangsnesi, Guðmundur Þ. Sigurgeirsson lét þar af störfum en við tók Guðmundur B. Magnússon, sonarsonur hans. Þá keypti félagið einnig aðra rækjupillunarvélina sem það hafði haft á leigu.

Flatningsvél í frystihúsið á Hólmavík var keypt 1975, og rækjupillunarvél tekin á leigu fyrir húsið á Drangsnesi. Þá var steypt ofan á veggi frystihússins á Drangsnesi, það hækkað og sett á það nýtt þak. Sama ár gerðist félagið einnig eignaraðili að nýju sumarhúsi í Bifröst í Borgarfirði. Árið eftir, 1976, voru svo keypt ísvél og frystipressa í frystihúsið á Hólmavík.


Bruni á Drangsnesi

Hinn 17. ágúst 1976 brann frystihús félagsins á Drangsnesi til grunna. Daginn eftir kom stjórn Kf. Steingrímsfjarðar saman til fundar og ákvað meðal annars eftirfarandi samkvæmt fundargerð:

"Þar sem þessi húsbruni stöðvar alla atvinnu á Drangsnesi er óumflýjanlegt að endurbyggja þar frystihús svo fljótt sem verða má. Ákveður því stjórn KSH að fela framkvæmdastjóra að athuga alla möguleika til framdráttar því máli nú þegar."

Svo er skemmst frá að segja að húsið var byggt aftur án tafar, og fyrir jól var það orðið fokhelt og búið að einangra meiri hluta útveggja. Sú ákvörðun var tekin, samhliða því að ákveðið var að endurbyggja húsið, að stofna um það sérstakt hlutafélag, Hraðfrystihús Drangsness hf. Kaupfélagið varð eigandi að 90% hlutafjár, en Kaldrananeshreppur að 10%. Vorið 1977 hófst starfræksla þess síðan með því að byrjað var að taka á móti hrognkelsum í nýbyggingunni þar. Hinn 17. janúar 1978 var svo byrjað á rækjuvinnslu í nýja frystihúsinu.

Árið 1977 voru keyptar nýjar innréttingar í verslun félagsins á Hólmavík og henni breytt í kjörbúð. Á árinu 1978 voru keypt flökunarvél, hausari og roðflettivél í frystihúsið á Hólmavík. Einnig keypti félagið þá gistihúsið á Hólmavík, sem leigt var út til gisti- og veitingareksturs, og þá byrjaði það á byggingu nýs verslunarhúss á Drangsnesi.

Hinn 13. október 1978 var stofnað félagið Hólmadrangur hf. Þegar í byrjun gerðist Kaupfélag Steingrímsfjarðar eigandi að 22,5% hlutafjár, en aðrir helstu eigendur eru Þorsteinn Ingason, Kárhóli í Reykjadal, Hólmavíkurhreppur og Kaldrananeshreppur. Félagið lét smíða skuttogarann Hólmadrang ST 70 sem hóf veiðar í byrjun mars 1983. Er skipið með frystilest, frystitæki og flökunarvél, og er aflinn unninn um borð.

Árið 1979 var 80 ára afmæli félagsins haldið hátíðlegt í tengslum við aðalfund þess sem var 9. júní. Öllum félagsmönnum var boðið í kvöldverðarhóf að Sævangi í Kirkjubólshreppi, og mættu þar rúmlega 190 manns. Meðal gesta var stjórnarformaður Sambandsins, Valur Arnþórsson, sem færði félaginu málverk að gjöf.

Þetta ár, hinn 28. maí, var verslunin á Drangsnesi opnuð í nýju húsnæði. Einnig var aðalfrystir fiskfrystihússins á Hólmavík þá endurbyggður og hann meðal annars gerður lyftaragengur. Sömuleiðis var byrjað á nýbyggingu yfir fiskmóttöku og vinnusali frystihússins.

Saumastofan Borgir hf. var stofnuð á Hólmavík 1980 og gerðist kaupfélagið hluthafi í því félagi. Það keypti þá einnig rækjupillunarvél sem það hafði haft á leigu um allmörg ár. Líka fékk það þá úthlutað lóð í svonefndu Höfðahverfi á Hólmavík, en hins vegar fékkst ekki samþykki fyrir því að svo komnu máli að félagið fengi leyfi til að reka bensínsölu þar. Á miðju ári 1981 tók það svo í notkun nýja fiskmóttöku; er hún um 500 fermetrar og rúmur helmingur hennar kældur. Árið 1981 tók félagið einnig á leigu tölvu af gerðinni IBM 5285 og hóf að nota hana til bókhalds og reikningagerðar í árslokin.

Á árinu 1982 var minnst 100 ára afmælis samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi. Kf. Steingrímsfjarðar hafði þá opið hús í fundarsal sínum á afmælisdaginn, líkt og önnur kaupfélög landsins. K venfélagið Glæður á Hólmavík sá þar um kaffiveitingar fyrir kaupfélagið, en gestir urðu um 270. Þennan dag kom einnig út fyrsta tölublað af fréttabréfi félagsins og nefndist það “Tilskrif”.

Þetta ár tók félagið í notkun nýja skrúfupressu og ammoníaksdælur í frystihúsinu á Hólmavík. Um sumarið, 23. júlí, var svo opnaður söluskáli við Höfðatún, í eigu Olíufélagsins hf. en rekinn af kaupfélaginu.

Þá gerðist Kf. Steingrímsfjarðar aðili að Samvinnusjóði Íslands hf. sem samvinnuhreyfingin stofnaði seint á árinu. Í ársbyrjun 1983 tók félagið síðan í notkun vinnusal fyrir fisk og rækju í nýbyggingu frystihússins, og er hann rúmir 400 fermetrar. Samtímis því var svo tekinn í notkun lausfrystir fyrir rækju. Á árinu gerðist félagið hluthafi í tveimur fyrirtækjum samvinnuhreyfingarinnar, Marel hf. og Landflutningum hf.

Þá má geta þess að Kf. Steingrímsfjarðar hefur lagt fram drjúgan stuðning til margs konar félags- og menningarmála í héraði á liðnum árum. Meðal annars hefur það styrkt Héraðssamband Strandamanna næstum árlega seinni árin, og auk þess hefur félagið styrkt leikstarfsemi og ýmsa aðra menningarstarfsemi með fjárframlögum.


Að lokum

Það er sífellt og hápólitískt deilumál manna á milli hvort verslun og atvinnulíf landsmanna sé betur komið í höndum frjálsra félagasamtaka almennings eða framtakssamra einstaklinga, það er í formi samvinnurekstrar eða einkarekstrar. Hér er ekki vettvangur til að halda fram hlut annars rekstrarfarmsins á kostnað hins, enda skal það ekki reynt.

Hitt er þó óhjákvæmilegt að benda á að í hinum afskekktari og strjálbýlIi byggðum landsins hefur samvinnureksturinn ótvíræða kosti. þar er fyrst af öllu að nefna þá festu í atvinnulífi sérhvers byggðarlags sem traust kaupfélag skapar. Slíkt félag gefur heimamönnum verulegt öryggi; það hleypur ekki í burtu einn góðan veðurdag með fjármagn og atvinnutæki og skilur heimamenn eftir áhaldalausa til lífsframfæris.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar er gott dæmi um félag af þessari tegund.

Líkt og önnur íslensk kaupfélög stendur það fast á rót sinni í heimabyggðinni. Það er í eigu félagsmanna og viðskiptamanna sinna, og þeir beita því fyrir sig á öllum þeim sviðum þar sem úrbóta eða framfara á sviði atvinnu eða verslunar er þörf. Samvinnureksturinn á því ef til vill hvergi brýnna erindi en í þeim héruðum þar sem kaupmenn og aðrir einkaframtaksmenn keppast ekki beinlíns í hópum eftir því að ná viðskiptum. Við slíkar aðstæður hefur Kaupfélag Steingrímsfjarðar nú í rúm áttatíu ár reynst traustur og góður burðarás í atvinnulífinu á félagssvæði sínu.


Heimildir

Ásgeir Ásgeirsson: Kaupfélag Hvammsfjarðar í Búðardal1900-1950 (Rvk. 1954). Félagsfrömuðirnir; ásamt útdrætti úr fyrstu fundargjörð Verslunarfélags Steingrímsfjarðar (í handriti í Skjalasafni Sambands ísl. samvinnufélaga í Rvk., höf. ókunnur).

Guðjón Guðlaugsson: Verslunarfélag Dalasýslu (Tímarit kaupfélaganna II 1897)

Hugleiðingar um verslunarsamtök og um stofnsjóði kaupfélaga (Tímarit kaupfélaganna II 1897). - Skýrsla frá Verslunarfélagi Steingrímsfjarðar (Tímarit kaupfélaga og samvinnufélaga (síðar Samvinnan) 1910).

Jóhann Hjaltason: Það sem einu sinni var (Strandapósturinn 1972). Jón Sæmundsson: Gamlar minningar (Strandapósturinn 1980).

Lög Verslunarfélags Steingrímsfjarðar (frá 1898). - útdráttur úr fyrstu aðalfundargjörð Verslunarfélags Steingrímsfjarðar. - Form fyrir skuldbindingu samkvæmt 5. gr.c. í lögum Verslunarfélags Steingrímsfjarðar. (Allt í handskrifaðri bók sem komin er úr fórum Björns Halldórssonar á Smáhömrum, nú í vörslu Skjalasafns Sambandsins í Reykjavík.)

Magnús Jónsson: Tímabilið 1871-1903, landshöfðingjatímabilið (Saga íslendinga, IX, 1, Rvk. 1957).

Sigvaldi Guðmundsson og Magnús Steingrímsson, drög að sögu Kf. Steingrímsfjarðar (í handriti í Skjalasafni Sambands ísl. samvinnufélaga, sent til Sambandsins 1949). - Prentað sem: Þættir úr verslunarsögu Strandasýslu (Strandapósturinn 1980).

Thorsten Odhe: Samvinnan á Islandi. - jónas jónsson: lslenskir samvinnumenn (Rvk. 1939).

Torfi Bjarnason: Pöntunarfélög og kaupfélög (Andvari 1893).

Tekið saman af Dr. Eysteini Sigurðssyni og birt með góðfúslegu leyfi hans. Samantekt þessi birtist í ritinu Strandir 2 sem gefin var út af Búnaðarsambandi Strandamanna árið 1985.

Sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar frá 1983 til dagsins í dag er verið að taka saman af fyrrverandi kaupfélagsstjóra, Jóni E. Alfreðssyni, og mun verða birt hér á síðunni þegar sú vinna er frágengin.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar

Höfðatúni 4, 510 Hólmavík
Sími: 455-3100
Netfang:ksholm@ksholm.is
Kennitala: 680169-5949
VSK Númer: 010100

Kort