Ágrip af sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar - Upphaf rækjuvinnslu

Article Index

Upphaf rækjuvinnslu

Til bjargar varð þó að um þetta leyti kom rækjuvinnsla til sögunnar, en naumast mun ofmælt að hún hafi komið líkt og himinsending til Strandamanna þegar þeim reið mest á. Þorgeir Guðmundsson fyrrverandi kaupfélagsstjóri var svo vinsamlegur að láta skrásetjara þessa efnis í té skriflega frásögn af byrjun rækjuvinnslunnar, og er hún svohljóðandi:

"Eins og útlitið var eftir ísaveturinn og vorið 1965 var óhugsandi að útgerð yrði stunduð áfram eins og verið hafði að vetrinum. Til þess að fá mannskap urðu útgerðarmenn að fastráða þá og borga þeim kauptryggingu, en til þess voru þeir ekki í stakk búnir sem skiljanlegt er.

Einhvern tíma á sjötta áratugnum hafði verið gerð tilraun til að leita að rækju í Húnaflóanum, sem ekki bar þó árangur. Þrátt fyrir það leyndist sú von hjá sumum að ekki væri útséð með að rækja kynni að vera í flóanum.

Jóhann Guðmundsson útgerðarmaður á Hólmavík vakti um sumarið eða haustið 1965 máls á því við mig hvort kaupfélagið væri reiðubúið til þess að kaupa af sér rækju ef hann gerði tilraun til að kanna hvort hana væri að finna í veiðanlegu magni. Engin aðstaða var þó á staðnum til að vinna rækju, nema húsnæði og frystiaðstaða. fyrst og fremst vantaði útbúnað til að sjóða hana, en til þess þurfti gufuketil ásamt fleiru.

Ég vildi gjarnan kanna hvort möguleiki væri á að koma upp vísi að rækjuvinnslu með litlum tilkostnaði, en óvissa var að sjálfsögðu mikil um það hvernig til tækist og eins víst að engin rækja fyndist. Þegar ég ræddi þetta við starfsmenn mína rifjaðist upp að til hefði verið lítill gufuketill í Iifrarbræðslu sem kaupfélagið átti. Hún hafði þá verið lögð niður nokkrum árum áður, ketillinn verið dæmdur ónýtur, eða a. m. k. óþarfur, og honum velt út í sjó, og þar lá hann. Var nú ákveðið að fiska ketilinn upp úr sjónum og kanna ástand hans. í ljós kom að það var hægt með litlum tilkostnaði að gera við ketilinn og koma honum í nothæft ástand. Þar með var kominn sá búnaður sem þurfti, en að vísu mjög frumstæður, t.d. var suðupotturinn olíu fat sem annar botninn var höggvinn úr. En allt var klárt til að hefja rækjuvinnslu. Sannaðist þarna hið fornkveðna að mjór er mikils vísir."

Og með þessum frumstæðu tækjum var síðan hafist handa. Handpillun á rækju hófst í frystihúsinu á Hólmavík haustið 1965 og í Drangsneshúsinu árið eftir, 1966. Allar götur síðan hefur rækjuvinnslan verið ein af veigamestu undirstöðum atvinnulífs á þessum stöðum.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar

Höfðatúni 4, 510 Hólmavík
Sími: 455-3100
Netfang:ksholm@ksholm.is
Kennitala: 680169-5949
VSK Númer: 010100

Kort