Ágrip af sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar - Bruni á Drangsnesi

Article Index

Bruni á Drangsnesi

Hinn 17. ágúst 1976 brann frystihús félagsins á Drangsnesi til grunna. Daginn eftir kom stjórn Kf. Steingrímsfjarðar saman til fundar og ákvað meðal annars eftirfarandi samkvæmt fundargerð:

"Þar sem þessi húsbruni stöðvar alla atvinnu á Drangsnesi er óumflýjanlegt að endurbyggja þar frystihús svo fljótt sem verða má. Ákveður því stjórn KSH að fela framkvæmdastjóra að athuga alla möguleika til framdráttar því máli nú þegar."

Svo er skemmst frá að segja að húsið var byggt aftur án tafar, og fyrir jól var það orðið fokhelt og búið að einangra meiri hluta útveggja. Sú ákvörðun var tekin, samhliða því að ákveðið var að endurbyggja húsið, að stofna um það sérstakt hlutafélag, Hraðfrystihús Drangsness hf. Kaupfélagið varð eigandi að 90% hlutafjár, en Kaldrananeshreppur að 10%. Vorið 1977 hófst starfræksla þess síðan með því að byrjað var að taka á móti hrognkelsum í nýbyggingunni þar. Hinn 17. janúar 1978 var svo byrjað á rækjuvinnslu í nýja frystihúsinu.

Árið 1977 voru keyptar nýjar innréttingar í verslun félagsins á Hólmavík og henni breytt í kjörbúð. Á árinu 1978 voru keypt flökunarvél, hausari og roðflettivél í frystihúsið á Hólmavík. Einnig keypti félagið þá gistihúsið á Hólmavík, sem leigt var út til gisti- og veitingareksturs, og þá byrjaði það á byggingu nýs verslunarhúss á Drangsnesi.

Hinn 13. október 1978 var stofnað félagið Hólmadrangur hf. Þegar í byrjun gerðist Kaupfélag Steingrímsfjarðar eigandi að 22,5% hlutafjár, en aðrir helstu eigendur eru Þorsteinn Ingason, Kárhóli í Reykjadal, Hólmavíkurhreppur og Kaldrananeshreppur. Félagið lét smíða skuttogarann Hólmadrang ST 70 sem hóf veiðar í byrjun mars 1983. Er skipið með frystilest, frystitæki og flökunarvél, og er aflinn unninn um borð.

Árið 1979 var 80 ára afmæli félagsins haldið hátíðlegt í tengslum við aðalfund þess sem var 9. júní. Öllum félagsmönnum var boðið í kvöldverðarhóf að Sævangi í Kirkjubólshreppi, og mættu þar rúmlega 190 manns. Meðal gesta var stjórnarformaður Sambandsins, Valur Arnþórsson, sem færði félaginu málverk að gjöf.

Þetta ár, hinn 28. maí, var verslunin á Drangsnesi opnuð í nýju húsnæði. Einnig var aðalfrystir fiskfrystihússins á Hólmavík þá endurbyggður og hann meðal annars gerður lyftaragengur. Sömuleiðis var byrjað á nýbyggingu yfir fiskmóttöku og vinnusali frystihússins.

Saumastofan Borgir hf. var stofnuð á Hólmavík 1980 og gerðist kaupfélagið hluthafi í því félagi. Það keypti þá einnig rækjupillunarvél sem það hafði haft á leigu um allmörg ár. Líka fékk það þá úthlutað lóð í svonefndu Höfðahverfi á Hólmavík, en hins vegar fékkst ekki samþykki fyrir því að svo komnu máli að félagið fengi leyfi til að reka bensínsölu þar. Á miðju ári 1981 tók það svo í notkun nýja fiskmóttöku; er hún um 500 fermetrar og rúmur helmingur hennar kældur. Árið 1981 tók félagið einnig á leigu tölvu af gerðinni IBM 5285 og hóf að nota hana til bókhalds og reikningagerðar í árslokin.

Á árinu 1982 var minnst 100 ára afmælis samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi. Kf. Steingrímsfjarðar hafði þá opið hús í fundarsal sínum á afmælisdaginn, líkt og önnur kaupfélög landsins. K venfélagið Glæður á Hólmavík sá þar um kaffiveitingar fyrir kaupfélagið, en gestir urðu um 270. Þennan dag kom einnig út fyrsta tölublað af fréttabréfi félagsins og nefndist það “Tilskrif”.

Þetta ár tók félagið í notkun nýja skrúfupressu og ammoníaksdælur í frystihúsinu á Hólmavík. Um sumarið, 23. júlí, var svo opnaður söluskáli við Höfðatún, í eigu Olíufélagsins hf. en rekinn af kaupfélaginu.

Þá gerðist Kf. Steingrímsfjarðar aðili að Samvinnusjóði Íslands hf. sem samvinnuhreyfingin stofnaði seint á árinu. Í ársbyrjun 1983 tók félagið síðan í notkun vinnusal fyrir fisk og rækju í nýbyggingu frystihússins, og er hann rúmir 400 fermetrar. Samtímis því var svo tekinn í notkun lausfrystir fyrir rækju. Á árinu gerðist félagið hluthafi í tveimur fyrirtækjum samvinnuhreyfingarinnar, Marel hf. og Landflutningum hf.

Þá má geta þess að Kf. Steingrímsfjarðar hefur lagt fram drjúgan stuðning til margs konar félags- og menningarmála í héraði á liðnum árum. Meðal annars hefur það styrkt Héraðssamband Strandamanna næstum árlega seinni árin, og auk þess hefur félagið styrkt leikstarfsemi og ýmsa aðra menningarstarfsemi með fjárframlögum.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar

Höfðatúni 4, 510 Hólmavík
Sími: 455-3100
Netfang:ksholm@ksholm.is
Kennitala: 680169-5949
VSK Númer: 010100

Kort