Ágrip af sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar - Áföll og endurreisn

Article Index

Áföll og endurreisn

Árið 1910 ritaði Guðjón kaupfélagsstjóri einnig rækilega skýrslu um félagið í Tímarit kaupfélaga og samvinnufélaga (síðar Samvinnuna). Eins og hér kom fram hefur félagið fljótlega aukið við byggingar sínar á Hólmavík, og í grein sinni skýrir Guðjón meðal annars svo frá að félagið sé þá búið að koma sér upp "talsvert stóru sláturhúsi."

Í grein þessari segir Guðjón einnig töluvert frá gengi félagsins frá stofnun þess til 1910. Þar segir meðal annars að allt fram til 1906 hafi hagur félagsins staðið með blóma. Söludeildin hafi gefið félagsmönnum 11-18% verslunararð, en 1907 hafi hvert óhappið af öðru riðið yfir. Félagsmenn hafi þá tekið að standa mun verr í skilum en fyrr, félagið hafi tapað talsverðu fé við gjaldþrot verslunarfyrirtækis í Kaupmannahöfn, og söludeildin hafi sömuleiðis tapað meira eða minna á öllum íslenskum vörum. Þetta hélt svo áfram 1908: stórkostlegt tap varð á fiski, vaxta tap varð mikið og útistandandi skuldir félagsmanna hækkuðu enn. Þegar þarna var komið var varasjóður félagsins að fullu uppurinn, og stórt skarð var höggvið í stofnsjóðinn.

Félagið jafnaði sig þó eftir þetta áfall, og árið 1911 tókst að lækka skuldir þess við heildsala og banka verulega, sömuleiðis greiddu félagsmenn stóran hluta af skuldum sínum við það. Afkoman varð nógu góð til þess að hægt reyndist að ná stofnsjóðnum upp í svipaða upphæð aftur og verið hafði fyrr, og unnt reyndist að leggja dá góða fjárhæð í varasjóð.

Verslunarfélag Steingrímsfjarðar starfaði þannig allt frá byrjun með sama hætti og flest önnur kaupfélög hér á landi, það er sem blandað félag. Þetta er sérkenni fyrir íslensku kaupfélögin, ef tekið er mið af samvinnufélögum í öðrum hlutum heimsins. Íslensku félögin eru jöfnum höndum félög framleiðenda og neytenda, þar sem afurðasala og neysluvöruútvegun er víðast hvar annars staðar aðskilin og í höndum sérstakra félaga. Þetta á sér vitaskuld sögulegar skýringar; Í byrjun og lengi frameftir voru framleiðendur og neytendur í hópi félagsmanna eitt og sama fólkið.

Frá byrjun hefur félagið því séð um að kaupa inn og útvega félagsmönnum sínum hvers konar verslunarvörur til almennrar neyslu. Það hefur einnig allt frá fyrstu tíð séð um að selja framleiðsluvörur félagsmanna. Fyrstu árin voru þetta fyrst og fremst landbúnaðarafurðir: ull, saltkjöt, gærur, sauðfé á fæti, æðardúnn og selskinn. Saltfiskur kemur þó til sögunnar þegar á fyrsta ári félagsins sem gjaldeyrisvara, og er hann töluverður liður í útflutningi þess árlega framan af.

Þá stofnaði félagið sparisjóð fyrir félagsmenn sína mjög snemma, eða þegar upp úr aldamótum. Sparisjóðurinn var rekinn í nánum tengslum við félagið, og var hann hliðstæður innlánsdeildunum sem reknar hafa verið innan flestra annarra kaupfélaga. Hann var starfræktur fram á áttunda áratuginn eins og síðar verður getið.

Samkeppni var nokkur um verslun á Hólmavík framan af. Árið 1896 hóf danskur maður, uppalinn á Ísafirði, R.P. Riis að nafni, að versla þar, og í allmörg ár rak hann verslun sem keppti við félagið. Verslunarstjóri hans var íslenskur, Jón Finnsson, uppalinn í héraðinu og þekkti vel til. Þessar verslanir kepptu allhart um viðskipti, en eftir að Riis lést, og enn meir nokkrum árum síðar þegar verslun hans hafði verið seld öðrum manni, fór að draga af henni. því lyktaði svo að árið 1937 keypti kaupfélagið hús og mannvirki Riisverslunar.

Meðan samkeppnin stóð voru báðar þessar verslanir talsvert umsvifamiklar. Báðar áttu verslunarhús, sláturhús, bryggjur og uppskipunarbáta. Sláturhúsin voru svipuð að gerð og lögun hjá báðum, og utan sláturtíðar voru þau talsvert notuð til annarra hluta. Einkum voru þau nýtt sem vörugeymslur, en einnig kom fyrir að í þeim væri efnt til pólitískra fundahalda.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar

Höfðatúni 4, 510 Hólmavík
Sími: 455-3100
Netfang:ksholm@ksholm.is
Kennitala: 680169-5949
VSK Númer: 010100

Kort