Ágrip af sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar - Vinnubrögðin

Article Index

Vinnubrögðin

Á fyrstu áratugum aldarinnar var atvinnulíf um margt frábrugðið því sem við þekkjum í dag. Þótt verkefni kaupfélagsins séu í megindráttum þau sömu, afurðasala og vöruútvegun, hafa vinnubrögð gjörbreyst í takt við framþróun tækninnar. Jón Sæmundsson frá Hólmavík birti fyrir nokkrum árum grein sem hefur að geyma minningar hans frá árunum 1915-20 þegar hann stundaði sláturvinnu á haustum hjá félaginu á Hólmavík. Frásögn hans bregður upp skýrri mynd af starfsaðferðum þessara tíma, en hann segir meðal annars:

"Ég var settur í það starf að salta kjötið, en þá var allt kjöt saltað og selt þannig út úr landinu ... Kjötið var saltað í tunnur og voru þær innfluttar. Tunnustafirnir komu í búntum, þ.e. hver tunna í einu búnti. Efnið í þessum tunnum var kallað brenni. Það var ekki þykkt, en vel unnið, slétt og áferðargott ... Ákveðin þyngd af kjöti og salt var látið í hverja tunnu, og var kjötþyngdin 112 kg. Um saltþyngdina man ég ekki því það var mælt í trékassa sem til þess var smíðaður og hafður var sléttfullur, var þetta gert til flýtisauka. Aftur á móti varð maður að vigta kjötið í hverja tunnu og hafði maður fasta vigt til þess. Lóð voru á vigtinni til jafnvægis á móti kjötinu og kassa sem maður lét það í til vigtunar. Oft þurfti að skipta um eitt eða tvö kjötstykki til þess að fá jafnvægi á vigtina. Þá var tvisvar settur saltpétur í hverja tunnu, og var hann mældur í brennivínsstaupi sem stéttin var brotin af. Var það hið venjulega snafsstaup þess tíma ...

Þegar pækilmaðurinn tók við tunnunum þá raðaði hann þeim upp á tunnustæðið í tvær samsettar raðir með götum á milli, svo að gott væri að komast að þeim til pæklunar. Þeim var ennfremur raðað þannig að samsetning botna snéri upp og niður og að merkingu á þeim mætti lesa. Annars var hverri tegund kjöts haldið á nokkuð sérstökum reitum, hvert um sig, og því auðvelt að finna út að slátrun lokinni hvað hafði komið mikið af hverri tegund kjöts í sláturtíðinni. Þegar svo pækilmaðurinn hafði raðað tunnunum upp á tunnustæðinu þá boraði hann gat á þann tunnustafinn sem mest vissi upp og sem næst miðju hans. Var þetta kallað sponsgat og um það var pækilvatnið á tunnurnar sett í gegnum trekt. Var síðan trétappa stungið lauslega í þetta gat og hann aldrei sleginn fastur í fyrr en vissa var fengin fyrir því hvenær tunnurnar fóru í skip. Pækillinn á tunnurnar var búinn til í stóru trékari. Var það með sveifarás í miðju, sem var með spöðum í botni en handfangi ofan brúna. Í þessu kari var hrært saman salt og vatn, sem við upplausn var kallað pækill eða pækilvatn. Þessi upplausn eða pækill varð að hafa vissan styrkleika og var hann mældur með þar til gerðum mæli ... "

Jón Sæmundsson lýsir einnig upp- og útskipun á vörum á Hólmavík á þessum árum, meðal annars þannig:

"Mér dettur í hug í þessu sambandi ein uppskipun sem ég var í á áratugnum 1920-1930. Þetta var að vori til og það kom saltskip sem eingöngu var með laust salt í lestum. Það var smalað saman mannskap úr sveitunum, er næst lágu kauptúninu, til vinnu við þetta skip. Saltmagnið, sem fara átti í land á Hólmavík og Drangsnesi, mun hafa verið óvenju mikið, og bendir það til þess að nokkuð hafi verið liðið á þriðja áratug aldarinnar. Setja varð um borð í skipið menn í lest, sem nokkuð var óvenjulegt á þeim árum. Þessi mannskapur varð að moka saltinu í poka, sem svo voru hífðir um borð í uppskipunarbátana, en um þann þátt vinnunnar sáu skipsmenn. Ég var í einum uppskipunarbátnum, sem og jafnan í þessari vinnu. Öllu þessu urðum við, sem í bátunum vorum, að henda úr þeim og upp á bryggju, þar sem þeir menn, er voru í landi, tóku við þessu. Var því ýmist ekið þaðan í hjólbörum eða borið á bakinu til salthússins ... "

Guðjón Guðlaugsson var kaupfélagsstjóri til 1919, en þá tók við Sigurjón Sigurðsson til 1923. Árin 1923-26 var Jónatan Benediktsson kaupfélagsstjóri, en Sigurjón aftur 1926-31 og Jónatan aftur 1932-38. Árin 1939-41 var Guðbrandur Magnússon frá Hólum kaupfélagsstjóri, Þorbergur Jónsson 1942-44, en síðan Jónatan Benediktsson í þriðja skipti 1945-58.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar

Höfðatúni 4, 510 Hólmavík
Sími: 455-3100
Netfang:ksholm@ksholm.is
Kennitala: 680169-5949
VSK Númer: 010100

Kort