Ágrip af sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar - Hálfrar aldar yfirlit

Article Index

Hálfrar aldar yfirlit

Það er oft svo um sögu kaupfélaga að fyrstu árin - baráttuárin - meðan verið er að ryðja brautina og koma fótunum undir félagsskapinn, eru einna frásagnarverðust. Svo er og hér, og sú saga, sem nú hefur verið rakin eftir slitróttum heimildum vegna skorts á fundagerðabókum og öðrum frumheimildum, er trúlega sá þáttur í sögu Kf. Steingrímsfjarðar sem hvað áhugaverðastur má þykja aflestrar. En félagið hefur verið í stanslausri framþróun síðan, og þótt á stundum kunni að hafa gustað allhart innan þess út af mönnum eða málefnum, hefur það samt aldrei gengið svo langt að undirstöður þess hafi verið í hættu.

Fram til ársins 1939 var sá háttur hafður á í félaginu að kaupfélagsstjóri var jafnframt formaður stjórnar. Frá 1939 til 1942 var stjórnarformaður síðan Benedikt Grímsson hreppstjóri og bóndi á Kirkjubóli. Arið 1942- 43 gegndi starfinu Magnús Gunnlaugsson bóndi á Ósi, en 1943-73 var formaður Jón Sigurðsson bóndi í Stóra-Fjarðarhorni. Þá tók við Grímur Benediktsson á Kirkjubóli, sem gegnir starfinu enn.

Þegar Jónatan Benediktsson lét af starfi kaupfélagsstjóra 1958 tók við Þorgeir Guðmundsson. Hann gegndi starfinu til 1967, en þá tók við því Árni S. Jóhannsson. Ári síðar, 1968, tók Árni við Kaupfélagi Húnvetninga á Blönduósi, en kaupfélagsstjóri á Hólmavík varð þá Jón E. Alfreðsson, áður skrifstofumaður hjá félaginu. Hann hefur gegnt kaupfélagsstjórastarfinu samfellt síðan.

Það sem hér fer á eftir er ágrip af sögu félagsins frá 1931, og er það rakið eftir upplýsingum úr bókum þess og ábendingum kunnugra manna. Hefur Jón E. Alfreðsson kaupfélagsstjóri orðið drýgstur við útvegun þeirra upplýsinga, en Þorgeir Guðmundsson fyrrverandi kaupfélagsstjóri hefur einnig miðlað mörgum gagnlegum fróðleik.

Þar er fyrst að nefna að árið 1931 er samþykkt á aðalfundi að taka upp deildaskiptingu í félaginu. Var ákveðið að ein deild skyldi vera í hverjum af fjórum hreppum félagssvæðisins. Síðar kom svo fimmta deildin til sögunnar, í Hólmavíkurhreppi. Eins og fyrr getur var deildaskipting í félaginu þegar við stofnun þess samkvæmt áður nefndum úrdrætti úr stofnfundargerð og fyrstu lögum. Er því svo að sjá að hún hafi fallið niður um tíma, ef til vill vegna þess að niðurfelling pöntunarfyrirkomulagsins hafi gert hana óþarfa, en um þetta eru ekki heimildir.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar

Höfðatúni 4, 510 Hólmavík
Sími: 455-3100
Netfang:ksholm@ksholm.is
Kennitala: 680169-5949
VSK Númer: 010100

Kort